Innlent

Björgólfur Thor ríkastur Íslendinga

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. MYND/Stefán Karlsson

Björgólfur Thor Björgólfsson gæti staðið undir öllum opinberum rekstri á Íslandi í um það bil hálft ár. Hann er númer 350 á lista yfir ríkustu menn veraldar samkvæmt nýjum lista Forbes tímaritsins.

Eignir Björgólfs eru metnar á 2,2 milljarða bandaríkjadollara eða sem nemur tæpum 140 miljörðum króna. Hann færst upp um heil 138 sæti síðan á síðasta ári, þegar hann var í 488. sæti listans.

Björgólfur er ekki nema tæplega fertugur og er einn af 30 yngstu mönnum á listanum. Eignir Björgólfs eru um það bil hálf fjárlög íslenska ríkisins og lætur því nærri að Björgólfur gæti rekið hér alla opinbera þjónustu í um það bil hálft ár.

Fjöldi þeirra sem eiga meira en einn milljarð dollara hefur aldrei verið meiri og nú komast rétt tæplega 800 manns í þann hóp. Tólfta árið í röð er Bill Gates ríkasti maður veraldar og eru eignir hans metnar á um 50 milljarða dollara, sem eru röskir 3000 milljarðar króna.

Sem fyrr koma langflestir milljarðamæringarnir frá Bandaríkjunum eða 371. Einn norðurlandabúi kemst inn á topp tíu að þessu sinni og það er eigandi Ikea, Ingvar Kamprad frá Svíþjóð, sem vermir fjórða sæti listans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×