Lífið

Óskarsbölvun hjónabandsins

Reese Witherspoon komst í tölvupóstinn hjá manni sínum og uppgötvaði sér til mikillar skelfingar að hann væri ástfanginn af annarri konu.
Reese Witherspoon komst í tölvupóstinn hjá manni sínum og uppgötvaði sér til mikillar skelfingar að hann væri ástfanginn af annarri konu.

Ekki er tekið út með sældinni að halda fjölskyldulífinu gangandi í kvikmyndaborginni Hollywood. Enn erfiðara virðist vera fyrir leikkonur að halda hjónabandinu réttum megin við línuna eftir að þeim hefur hlotnast æðstu verðlaun kvikmyndaakademíunnar, Óskarinn.

Svo virðist sem einhver bölvun hafi verið lögð á hjónaband þeirra leikkvenna sem hljóta styttuna góðu því á undanförnum tíu árum hafa sex leikkonur ákveðið að skilja að skiptum við eiginmenn sína. Einhverjum kann það að koma þannig fyrir sjónir að leikararnir sem þær eru giftar þoli illa þá athygli sem spúsur þeirra fá og ákveði því að skipta um kvonfang til að ná athyglinni aftur.

Mörgum brá í brún þegar tilkynnt var að Reese Witherspoon og Ryan Philippe ætluðu að skilja eftir að leikkonan komst á snoðir um framhjáhald mannsins síns á tökustað í Ástralíu. Aldrei þessu vant gæti skilnaðurinn orðið henni dýrkeyptur því hjónakornin fyrrverandi skrifuðu ekki undir neinn kaupmála en Witherspoon er hæstlaunaða leikkona Hollywood og komast laun Philippe ekki í hálfkvisti við þær upphæðir sem Óskarsverðlaunaleikkonan fær fyrir hverja mynd.

Helen Hunt reið fyrst á vaðið en hún fékk Óskar frænda fyrir hlutverk sitt í As Good as it Gets árið 1998. Hunt giftist manni sínum Hank Azaria ári seinna en hjónabandið entist ekki árið, þau skildu árið 2000, aðeins tveimur árum eftir að styttan góða fékk sinn stað á hillu fyrir ofan arineldinn.

Bölvunin var hins vegar lögð á verðlaunin árið 1999 þegar Gwyneth Paltrow grét úr sér augun eftir að hafa verið útnefnd sem besta leikkonan í aðalhlutverki í kvikmyndinni Shakespeare in Love. Viti menn, hún þakkaði að sjálfsðgðu unnusta sínum Ben Affleck fyrir stuðninginn en þau kynntust við gerð myndarinnar. Skömmu síðar hættu þau saman enda var þá ferill Affleck á hraðri niðurleið og hann þurfti að koma sér í umræðuna á ný með nýrrri konu. Tveimur árum síðar mætti Julia Roberts með Benjamin Bratt í Kodak-höllina, hirti gripinn fyrir Erin Brockovich og hálfu ári síðar var ævintýrið úti. Ekki tók betra við að ári þegar Halle Berry var kysst blautum kossi af Adrian Brody en hún fékk þá Óskarinn fyrir Monster"s Ball. Berry hafði lengi stutt við bakið á manni sínum Eric Bennet sem var yfirlýstur kynlífsfíkill en honum virtist ganga illa að venja sig af fíkninni og þau skildu þremur árum síðar, bölvunin virtist hins vegar vera í rénun.

Hún blossaði þó aftur upp í fyrra þegar leikkonan Hilary Swank hlaut Óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Million Dollar Baby eftir Clint Eastwood. Eitthvað hafði greinilega gengið á hjá henni og eiginmanninum Chad Lowe því þau tilkynntu nýlega að hjónabandinu væri lokið. Reese Witherspoon hefur því núna sannað tilveru Óskarsbölvunarinnar, að engin leikkona skyldi ganga gift upp sviðið í Kodak-höllinni þegar tilkynnt verður um hver sé sú besta í bransanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.