Innlent

Vitni sá bíl ódæðismannanna

Íbúi í Garðinum sá bílinn sem fjórir ódæðismenn notuðu til að nema á brott mann á sjötugsaldri á laugardag. Um er að ræða stóran, amerískan bíl og kannar lögreglan bifreiðaskrár í von um að komast til botns í málinu.

Kristinn Óskarsson var að horfa á sjónvarpið heima hjá sér í Garðinum um kvöldmatarleytið á laugardagskvöld þegar fjórir menn bönkuðu upp, börðu hann og námu hann á brott. Íbúi í bænum sá bílinn sem Kristinn var numinn á brott í og koma lýsingarnar hans heim og saman við lýsingar Kristins á bílum. Bíllinn er gulleitur stór ameríkur dreki og ætlar lögreglan í Keflavík að ekki séu margir slíkir til á landinu. Rannsóknin miðast nú að því að hafa upp á eiganda bílsins við leit í bifreiðarskrám. Engin skýring hefur verið fundin á því af hverju manninum var misþyrmt með þessum hætti en hann slapp illa útleikinn frá árásarmönnunum eftir sjö klukkutíma. Hann leitaði ásjár fólks á bænum Múla í Biskupstungum og þykir mildi að einhver hafi verið þar þar sem enginn hefur þar farsta búsetu. Frásögn mannsins þykir trúverðug og ljóst að hann yfirgaf heimili sitt ekki sjálfviljugur en hann var meðal annars skólaus og skildi eftir bæði veski og sígarettur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×