Innlent

Farið að tilmælum umboðsmanns í langflestum tilvikum

MYND/Pjetur

Farið hefur verið að tilmælum Umboðsmanns Alþingis í langflestum tilvikum innan stjórnsýslunnar. Þetta sýna tölur í skýrslum Umboðsmanns Alþingis undanfarin ár.

Deilt hefur verið um það síðustu daga hvort stjórnvöld fari eftir þeim tilmælum sem umboðsmaður Alþingis beinir til þeirra. Deilan spratt vegna ráðningar ráðuneytisstjóra til félagsmálaráðuneytisins í ágúst 2004, en umboðsmaður Alþingis segir að verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð Árna Magnússonar þegar hann réð í starfið. Forsætisráðherra lýsti því yfir eftir það að hann teldi að það væru ráðherrarnir sem þyrftu að endingu að ráða því hverjir tækju við starfi ráðuneytisstjóra. En fara stjórnvöld að tilmælum umboðsmanns?

Ef rýnt er í ársskýrslur umboðsmannsins, sem hann skilar Alþingi á hverju ári, kemur í ljós að hann kannar hvort farið hefur verið að tilmælum hans. Í ljós kemur að á árunum 2002-2004 sendi umboðsmaður frá sér 66 álit með sérstökum tilmælum en þar er átt við tilmæli um að stjórnvald endurskoði tiltekna ákvörðun. Í 44 þeirra var að mati umboðsmanns farið að tilmælum, í 16 tilvikum var ekki leitað aftur til stjórnvalds vegna þess máls sem fjallað var um og í þremur tilvikum var ekki farið að tilmælum umboðsmanns, þar af tvisvar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Þegar horft er til almennra tilmæla frá Umboðsmanni Alþingis, sem eru tilmæli um hvernig haga beri sambærilegum málum og þeim sem kvartað er um í framtíðinni, metur hann það svo að farið hafi verið að þeim í þeim 57 tilmælum sem umræði. Samtals hafa því stjórnvöld farið tilmælum umboðsmanns í 101 máli af 124 eða í ríflega áttatíu prósentum tilvika en ekki gert það í þremur prósentum tilvika á árunum 2002-2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×