Innlent

Bæjarráð Vestmanneyjabæjar hafnar kröfu Inga Sigurðssonar

Bæjarráð Vestmanneyjabæjar ákvað á fundi sínum í gærkvöldi að hafna kröfu Inga Sigurðssonar, fyrrverandi bæjarstjóra, um greiðslu ríflega tuttugu og sex milljóna króna vegna meintra vanefnda á ráðningarsamningi hans. Ingi segist bíða formlegs svars áður en ákvörðun um málsókn verði tekin.

Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri, sagði í samtali við NFS að bréf Inga um málið hefði verið tekið fyrir á fundinum og kröfu Inga hefði verið hafnað með öllum greiddum atkvæðum. Ingi var ráðinn bæjarstjóri í Vestmannaeyjum eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2002 af meirihluta sjálfstæðismanna og framsóknarmanna.

Hins vegar slitnaði upp úr því samstarfi um ári síðar og var Inga þá sagt upp störfum þegar nýr meirihluti Vestmannaeyjalistans og Framsóknarflokksins tók við. Taldi bærinn Inga eiga inni launagreiðslur í hálft ár sem hann hefur fengið en Ingi telur sig eiga inn laun út kjörtímabilið eða fram í júní á þessu ári. Ingi sagði í samtali við NFS að hann biði nú formlegs svars frá bæjarráði og síðan yrði tekin ákvörðun um það hvort farið yrði í mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×