Erlent

Gay Pride í Brasilíu

Mynd/AP

Sannkölluð karnivalstemning var á Copacabana-ströndinni í Rio de Janeiro í gær, þegar brasilíska Gay Pride skrúðgangan fór þar um.

Þúsundir samkynhneigðra, dragdrottninga og klæðskiptinga söfnuðust saman á Copacabana-ströndinni í Rio de Janeiro til að minna á réttindabaráttu samkynhneigðra í Brasilíu í hinni árlegu Gay Pride göngu. Áætlað er að yfir hundrað þúsund manns hafi tekið þátt í þessari elleftu gleðigöngu samkynhneigðra í Brasilíu, en aðeins um hundrað manns gengu saman í fyrsta skipti sem gengið var undir regnbogafánanum í Brasilíu. Yfirleitt er gengið í júní í Brasilíu en gangan var færð að þessu sinni til þess að hún félli ekki í skuggann af heimsmeistarakeppninni í fótbolta.

Skipuleggjendur göngunnar hvöttu samkynhneigð pör til að kyssast í göngunni, til að sýna andstöðu gegn fordómum gegn samkynhneigðum.

Einnig vöktu skipuleggjendur athygli samkynhneigðra para á möguleikanum á því að skrá sig í óvígða sambúð til þess að hafa sama erfðarétt og skattafríðindi og önnur pör í vígðri sambúð, en frumvarp um hjónaband samkynhneigðra hefur legið fyrir brasilíska þinginu í tíu ár og þokast lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×