Erlent

Fatah vill ekki vinna með Hamas

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna.
Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna. MYND/AP

Fulltrúar Fatah-fylkingarinnar lýstu því yfir í kvöld að þingmenn hennar ætluðu ekki að taka sæti í ríkisstjórn Hamas-samtakanna. Hamas hlaut hreinan meirihluta í þingkosningum Palestínumanna í gær og vilja þegar hefja viðræður við Fatah og aðra flokka sem fengu sæti á þingi í gær.

Hamas-liðar fengu 76 sæti af 132 og Fatah-hreyfingin 43. Búið er að telja 95% atkvæða. Það er því óhætt að segja að friðarhorfur fyrir botni Miðjarðarhafs séu í töluverðri óvissu þar sem herská samtök sem viðurkenna ekki tilvist Ísraelsríkis hafa nú hreinan meirihluta á palestínska þinginu.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, sagði í kvöld að hann ætlaði þegar að boða til viðræðufundar um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Hann sagði það enn stefnu sína að finna friðsama lausn á deilum Ísraela og Palestínumanna.

Bandaríkjamenn hafa þegar lýst áhyggjum sínum og sagði Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag að stefna Bandaríkjastjórnar gagnvart Hamas hefði ekki breyst, þetta væru enn hryðjuverkasamtök í þeirra augum.

Bush Bandaríkjaforseti sagði að úrslit kosninganna væru vísbending um hve Palestínumenn væru óánægðir með stöðu mála í dag. Hins vegar myndu Bandaríkjamenn ekki vinna með stjórnmálaafli sem hvetti til þess að Ísraelsríki yrði eytt.

Fulltrúar Ísraelsstjórnar lýstu því yfir í kvöld að þeir ætluðu ekki að semja við palestínska ríkisstjórn sem Hamas-samtökin kæmu að.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×