Innlent

20 prósent nefnda bara skipaðar körlum

Ráðherrar hafa skipað nær 1.600 manns í nefndir síðan í nóvember 2004, að meðaltali um hundrað í hverjum mánuði. Fimmta hver nefnd er aðeins skipuð körlum.

Síðustu sautján mánuðina hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar skipað 1.590 manns í samtals 250 nefndir á vegum ráðuneyta sinna. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.

Hátt í helmingur nefndanna heyrir undir eitt ráðuneyti, menntamálaráðherra hefur skipað tæplega 800 manns í rúmlega hundrað nefndir. Stór hluti nefndanna eru þó skólanefndir og ráð, nemaleyfisnefndir og stjórnir sjóða og stofnana.

Athygli vekur að fimmta hver nefnd sem ráðherrar hafa skipað síðustu sautján mánuði er aðeins skipað körlum. Það eru 47 nefndir af 250 en sex nefndir eru aðeins skipaðar konum.

Katrín segir þetta valda sér miklum vonbrigðum, ekki síst í ljósi þess að Alþingi hafi samþykkt jafnréttisáætlun fyrir ráðuneytin þar sem kveðið er á um að fjöldi karla og kvenna í nefndum skuli vera sem jafnastur. Hún segir að ábyrgðin hljóti að liggja hjá ráðherrum að fara eftir jafnréttisáætlun.

Sex af hverjum tíu nefndarmönnum eru karlar og 40 prósent konur. Mikill munur er á þessu eftir ráðuneytum. Karlar eru í yfirgnæfandi meirihluta í þeim fjórum nefndum sem landbúnaðarráðherra hefur skipað, 88 prósent. Félagsmálaráðuneytið er hins vegar eina ráðuneytið þar sem konur eru í meirihluta þeirra sem hafa verið skipaðir í nefndir, 55 prósent nefndarmanna þar eru kvenkyns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×