Innlent

Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum fátíðara en áður talið?

Svo virðist sem kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum sé fátíðara en þær tölur sem birst hafa í fjölmiðlum undanfarin misseri gefa til kynna. Þetta kemur fram í nýrri könnun um kynhegðun ungmenna og kynferðislega misnotkun á börnum.

Bandarnaverndastofa og Rannsóknir og greining, sem er sjálfstæð rannsóknarstofnunin innan Háskólans í Reykjavík, kynntu á föstudag niðurstöðu viðamikillar könnunar á kynhegðun ungs fólks hér á landi og kynferðislega misnotkun. Könnunin var gerð í öllum framhaldsskólum landsins árið 2004 og byggist hún því á svörum um 10.500 nemenda.

Oft hefur verið vitnað til þess í umræðum undanfarin misseri um kynferðislega misnotkun á börnum, eða einstaklingum undir 18 ára aldri, að um um sautján prósent barna hafi orðið fyrir slíkri misnotkun. Niðurstöður könnunarinnar sem kynnt var í fyrradag gefa hins vegar til kynna að 8 til 9 prósent barna að meðaltali hafi verið beitt kynferðislegri misnotkun, eða hátt í fjórtán prósent stúlkna og tæplega þrjú prósent drengja.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir þetta líklega helgast af því að í rannsókninni sem tölurnar sem vitnað hefur verið til hingað til hafi verið spurt um kynferðislega misnotkun og kynferðislega áreitni. Hann viti það þó ekki fyrir víst þar sem sú rannsókn sé óbirt.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×