Lífið

Samþykkt af sænska kónginum

Viktoría svíaprinsessa Hringir í Þórunni ef hún lendir í vandræðum á Húsavík.
Viktoría svíaprinsessa Hringir í Þórunni ef hún lendir í vandræðum á Húsavík.

Einn yngsti ræðismaður landsins er að setja sig í stellingar í starfi. Þórunn Harðardóttir var nýverið skipuð heiðurs­ræðismaður Svíþjóðar með aðsetur á Húsavík. Hún er 28 ára starfsmaður hvalaskoðunarfyrirtækisins Norðursiglingar.

„Þetta kom til að frumkvæði sendiherra Svíþjóðar hér á landi,“ segir Þórunn glaðlega þegar hún gefur sér tíma til að spjalla milli hvalaskoðunarferða. Sendiherrann og Þórunn hafa starfað saman í hópi að undir­búningi verkefnisins Garðarshólma en það er tileiknað Garðari Svavarssyni, Svíans sem fann Ísland á undan Hrafna-Flóka og sjálfum Ingólfi Arnarsyni. „Þessi sænska tenging er mjög sterk hérna á Húsavík,“ segir Þórunn, sem vill gera Húsavík að sænska bænum á Íslandi.

Ræðismennska er unnin í sjálfboðavinnu og hefur Þórunn alla trú á að starfið við Norðursiglingu fari vel saman við að vera heiðursræðismaður. „Stór hluti starfsins verður að vera til upplýsingagjafar fyrir Svía sem hugsanlega lenda í einhverjum vanda og vera með upplýsingagjöf um Svíþjóð á svæðinu,“ segir Þórunn.

Setning ræðismanns þarf að fara eftir sérstökum leiðum. „Sendiherrann sækir um þetta til utanríkisráðuneytisins í Svíþjóð. Þar fer umsóknin í gegnum eitthvert ferli sem mér er ekki kunnugt um, þar sem hún fer meðal annars inni á borði hjá kónginum.“

Þórunn er yngsti ræðismaður Svíþjóðar en alls starfa um 380 ræðismenn landsins víðs vegar um heiminn. „Ég veit satt að segja ekki til þess hvort það eru margir í þessu starfi hér á landi sem eru á mínum aldri eða af mínu kyni,“ segir Þórunn Harðardóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.