Bandaríska verslanakeðjan GAP er þekkt fyrir að nota fræg andlit í auglýsingaherferðum sínum. Ný auglýsing frá fyrirtækinu státar af hinu velþekkta andliti Audrey Hepburn, en Audrey lést fyrir yfir þrettán árum síðan.
Í auglýsingunni sést hún dansa í atriði sem er tekið úr myndinni Funny Face frá árinu 1957. Lagið Back in black með AC/DC er leikið undir, en auglýsingin snýst einmitt um endurkomu þröngra, svartra buxna. Það má segja að andlit Audrey sé viðeigandi í þessu samhengi, því hún er almennt álitin holdgervingur kvenleikans í litla svarta kjólnum sem hún gerði ódauðlegan í myndinni Breakfast at Tiffany's.