Lífið

Íslendingar allt í öllu í nýju myndbandi hjá Placebo

Erna Erna Ómarsdóttir dansaði við Harry Dean Stanton í Los Angeles.
Erna Erna Ómarsdóttir dansaði við Harry Dean Stanton í Los Angeles.

Breska rokksveitin Placebo tók upp nýtt myndband fyrir skemmstu. Íslendingar voru afar áberandi við gerð myndbandsins.

Félagarnir Stefán Árni og Siggi Kinski, fyrrum meðlimir Gus Gus, tóku nýverið upp myndband við lagið Follow the Cops Back Home með ensku rokksveitinni Placebo.

Lagið var samið á Íslandi og upphaflega stóð til að taka það upp hér á landi en á endanum varð Los Angeles fyrir valinu.

Með aðalhlutverk í myndbandinu fara Erna Ómarsdóttir dansari og Harry Dean Stanton, sem er m.a. þekktur fyrir hlutverk sín í Wild at Heart, The Green Mile, Repo Man og Paris, Texas. Auk þeirra koma leikstjórarnir sjálfir við sögu í myndbandinu.

Erna var í tvo daga í Los Angeles við tökurnar og segir hún upplifunina hafa verið mjög sérstaka. Þetta er allt annar heimur en ég er í en það er mjög hollt að upplifa aðra hluti. Þetta var mjög skemmtilegt og upplífgandi, segir Erna.

Í myndbandinu er sögð saga af stúlku, sem er leikin af Ernu, sem lítur út fyrir að hafa sloppið frá lögreglunni, sem Stefán Árni og Siggi leika. Fer hún að dansa um í handjárnum þar til Harry Dean Stanton nær í lykilinn að þeim og bjargar henni. Dansa þau síðan saman í lokin. Þetta var ekki leiðinlegt og hann kenndi mér nokkra góða takta, segir Erna um Harry Dean. Hann er einn af mínum uppáhaldsleikurum og það var mjög gaman að dansa við hann. Hann er skemmtilegur karakter. Hann virkaði frekar þreytulegur í byrjun en svo lifnaði yfir honum þegar ég fór að kenna honum íslensku, segir hún.

Erna er um þessar mundir búsett í Belgíu þar sem hún undirbýr m.a. sýningu með fjöllistahópnum Pony. Er hún einnig með annan fótinn á Íslandi. Hún er ekki ókunnug tónlistarmyndböndum því hún hefur áður leikið í myndbandi við Bjarkarlagið Where Is the Line? af plötunni Medúlla. Þar fór hún eftirminnilega með hlutverk djöfuls sem brýst út úr Björk.

Stefán Árni og Siggi hafa áður tekið upp myndbönd fyrir sveitir á borð við Snow Patrol, Travis og Iggy Pop og eru því ýmsu vanir í bransanum. Einnig tóku þeir upp myndband við lag Sigur Rósar, Glósóli, sem var valið besta rokkmyndbandið á Sköpunar- og hönnunarverðlaununum sem voru afhent í Hammersmith Palais í London á dögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.