Innlent

Umfjöllun um matvælaverð ósanngjörn

Ekki er sanngjarnt að segja að matvöruverslanir hriði gengishagnað af neytendum eins og Blaðið hélt fram í umfjöllun sinni um matvælaverð nú fyrir skömmu. Þetta segja Félag íslenskra stórkaupmanna og Samtök verslunar og þjónustu í yfirlýsingu sem þau hafa sent frá sér.

Félag íslenskra stórkaupmanna og Samtök verslunar og þjónustu segja að ljóst sé að mikil samkeppni ríki milli matvöruverslana sem þrýstir á að gengisbreytingar, hverjar sem þær eru, komi fram í matvælaverði. Hins vegar sé það ekki eingöngu gengi sem hafi áhrif á matvælaverð heldur ýmislegt annað eins og verðbreytingar erlendis, breytingar á kostnaði við að koma vörunum á markað, birgðahaldskostnaður og opinber gjöld, laun og annar rekstrarkostnaður. Þegar tekið er tillit til þessa sé málflutningur Blaðsins í besta falli bjagaður og í versta falli ósannur að mati Samtaka verslunar og þjónustu og Félags stórkaupmanna.

Á vef ASÍ var birt umfjöllun um matvælaverð þann 16. þessa mánaðar þar sem fram kemur matar- og drykkjarverð hafi hækkað stöðugt síðan í júní í fyrra og er nú að mestu orðið svipað hátt og það var í byrjun árs 2005 áður en verðstríðið á matvörumarkaðinum brast á. Í grein ASÍ rekja þeir hækkanirnar nú til þess að heildsalar hækkuðu heildsöluverð um áramótin þegar nýtt umbúðagjald var lagt á og til þess að kaupmenn séu að leiðrétta sinn hlut eftir að hafa farið halloka í verðstríði sem var þeim dyrkeypt.

Samtök verlsunar og þjónustu og Félag stórkaupmanna benda á í yfirlýsingu sinni að matvara sé aðeins um 14% af heildarútgjöldum heimilanna og það hlutfall minnki stöðugt. Mikill áhugi sé hins vegar á þessarri grein verslunar og því sé brýnt að gefa reglulega út verðvísitölu fyrir matvöru svo hægt verði í framtíðinni að ræða áhrif gengis á verð á málefnanlegum nótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×