Erlent

Aron Pálmi enn í Beaumont

Nýjustu fréttir af Aroni Pálma eru þær að hann enn staddur í Beumont. Rútuferðinni til Austin hefur verið frestað og er hann nú í umsjón Rauða krossins í borginni og er verið að skipuleggja brottflutning fjölda manns. Ekki er vitað hvert farið verður með fólkið. Aron Pálmi Ágústsson yfirgaf heimili sitt í Beumont um klukkan þrjú í dag eftir að sendiráð Íslands í Washington útvegaði honum rútumiða til Austin í Texas. Aron Pálmi óttaðist mjög um líf sitt þar sem hann hélt að leyfið bærist of seint, en fellibylurinn Ríta stefnir á bæinn. Aron Pálmi, sem hefur sætt refsivist í Bandaríkjunum í átta ár, býr í borginni Beaumont sem er rétt við fylkjamörk Texas og Louisiana. Talið er að fellibylurinn Ríta fari meðal annars yfir borgina og hafa yfirvöld hvatt íbúa til að yfirgefa svæðið. Fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar hefur verið í stöðugu sambandi við Aron Pálma frá því snemma í morgun en í gærkvöldi skrifaði hann stuðningsmannahópi sínum bréf þar sem hann lýsti áhyggjum sínum af gangi mála. Hann óttaðist mjög um líf sitt og hann var hræddur um að ef hann fengi leyfi til að fara væri það orðið of seint, en allir nágrannar hans yfirgáfu borgina í gærkvöldi og í nótt. Aron Pálmi er á skilorði og hann er með sérstakt senditæki um fótinn þar sem hægt er að fylgjast með öllum hans ferðum. Í gærkvöldi ræddi Aron Pálmi við skilorðsfulltrúa sinn sem sagði að hann mætti ekki yfirgefa svæðið fyrr en neyðarástandi yrði lýst yfir. Í morgun náði hann ekki í skilorðsfulltrúa sinn og á tímabili var hann að hugsa um að fara af stað fótgangandi úr bænum. Það var svo klukkan þrjú að íslenskum tíma sem hann fékk staðfestingu á því frá sendiráði Íslands í Washington að búið væri að útvega honum flugmiða til Austin í Texas þangað sem hann verður kominn í kvöld. Hann mun þó ferðast algjörlega á eigin vegum. Aðspurður hvort hann ætti skyldfólk þar neitaði Aron Pálmi því en hann sagðist þó ætla að reyna að hitta fjölskyldu sína. Þrátt fyrir að hann sé að fara óttast hann hvað muni taka við. Aron Pálmi segist ánægður að hann sé að fara en hann óttist að hann missi allar eigur sínar. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×