Erlent

Stríðsástand í New Orleans

Gríðarleg eyðilegging, dauði og stjórnleysi blasir við hvert sem litið er á svæðunum sem fellibylurinn Katrín lék grátt. Stríðsástand er í New Orleans, sem er á kafi í vatni. Enginn veit hversu margir fórust þegar Katrín reið yfir en þeir skipta hundruðum hið minnsta. Í Missisippi hefur verið staðfest að hundrað týndu lífi en yfirvöld telja víst að sú tali muni tvöfaldast ef ekki þrefaldast. Þrjátíu fórust þegar íbúðarhús í Biloxi hrundi þegar níu metra há stormalda skall á því. Í New Orleans er vitað um á milli fimmtíu og hundrað sem fórust en endanleg tala er óljós, þar sem björgunarsveitir á bátum og þyrlum hafa vart undan að bjarga fólki sem hefst við á þökum heimila sinna við illan leik. Á meðan fljóta lík um í flóðavatninu í kring og rotna. Borgin er að sökkva í vatni sem enn flýtur inn eftir að varnargarðar við Pontchartrain-vatn gáfu sig. Áttatíu prósent borgarinnar eru á kafi í vatni sem er á köflum allt að sex metra djúpt, að sögn borgarstjórans. Sextíu metra breytt gat kom á varnargarðinn sem verkfræðingar frá Bandaríkjaher reyna nú að fylla upp í með sandpokum sem varpað er úr þyrlum. Talið er ólíklegt að það dugi til en vatnið ætti að ná eðlilegri hæð eftir um einn og hálfan sólarhring, og flóðavatnið ætti að sjatna í kjölfarið. Gamla, franska hverfið virðist hafa sloppið betur en stórir hlutar borgarinnar þar sem það situr nokkuð hærra en mörg önnur hverfi. Annars staðar í borginni ríkis algjört stjórnleysi, þjófar fara um ránshendi og íbúar eru sjálfir komnir út á götur, vopnaðir, til að reyna að halda uppi lögum og reglu. Þrjú þúsund og fimm hundruð þjóðvarðliðar hafa verið sendir til borgarinnar og lögreglumenn reyna gráir fyrir járnum að hafa stjórn á málum. Fréttamaður BBC segir að helst sé eins og verið sé að koma á herlögum og útgöngubann er í gildi. Matvara er af skornum skammti og ekkert hreint drykkjarvatn er að fá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×