Innlent

Styttingu framhaldsnáms seinkar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur ákveðið að fresta fyrirhugaðri styttingu á námi til stúdentsprófs um eitt ár. Það þýðir að ný námsskrá tekur gildi haustið 2009 í stað 2008 eins og stefnt var að. Meginástæður breytingarinnar eru ábendingar sem ráðherranum bárust frá nemendum og skólastjórnendum um að ekki væri nægjanlegur tími til stefnu. Einnig komu fram áhyggjur vegna ýmissa þátta í endurmenntun kennara og gerð námskrár og námstefnu. "Aðalatriðið er þó að áformin halda sér, við þurfum að nýta tímann betur og það felst mikil verðmætasköpun í því að hafa þá meginreglu að skólaganga til stúdentsprófs verði þrettán ár í stað fjórtán. Þetta er afar mikilvægt fyrir íslenskt samfélag því það gengur ekki að Ísland sé eina þjóðin í Evrópu sem hefur svo langa skólagöngu til að komast í háskóla", segir Þorgerður Katrín. Hún segir ljóst að breytingin muni kosta hundruð milljóna, en ekki verði hjá því komist að ráðast í þessa framkvæmd. "Okkur ber skylda til að nýta námstímann betur, við erum í alþjóðlegri samkeppni og hvert ár er dýrmætt", segir hún. Þorsteinn Þorsteinsson formaður skólameistarafélags Íslands segist alls ekki ósáttur við frestunina og finnst hún afar eðlileg. "Það eru skiptar skoðanir um þessar breytingar innan raða skólamanna, menn vilja ræða þessi mál betur og þetta gefur mönnum betri tíma til að skoða ýmis álitamál í framkvæmdinni". Hann segist heyra að margir skólamenn hafa nokkrar áhyggjur af framkvæmd breytinganna en sjálfur er hann fylgjandi styttingu námstímans, hefði þó frekar vilja lengja skólaárið meira en segist gera sér grein fyrir því að um það séu mjög skiptar skoðanir. "Þeir sem gagnrýna þessar breytingar mest óttast að með þessu sé verið að skerða námið, það verði minna nám í mikilvægum greinum", segir Þorsteinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×