Erlent

Lögreglustjóri vildi ekki rannsókn

Yfirmaður Lundúnalögreglunnar, Ian Blair, reyndi að koma í veg fyrir að óháðri rannsóknarnefnd lögreglu væri falið að rannsaka dauða Brasilíumannsins Jean Charles De Menezes, að því er breska blaðið The Guardian skýrir frá. Blair skrifaði bréf til innanríkisráðuneytisins sama dag og lögreglan skaut Menezes til bana á lestarstöð í Lundúnum og færði rök fyrir því að lögreglan myndi sjálf rannsaka málið. Forsendur hans voru þær að yfirstandandi rannsókn vegna hryðjuverkanna í Lundúnum yrði að hafa forgang yfir utanaðkomandi rannsókn á dauða Menezes. Blair var sagður hafa áhyggjur af því að utanaðkomandi rannsókn myndi eyðileggja móralinn í skotvopnadeild lögreglunnar sem starfaði undir miklu álagi. Síðar sama dag var tekin ákvörðun í ráðuneytinu um að ekki yrði farið að beiðni Blair og óháð rannsókn færi fram samkvæmt lögum. Í yfirlýsingu frá Lundúnalögreglunni frá því í fyrradag kemur fram að þrátt fyrir að ákveðið hafi verið að rannsóknarnefndin kæmi að málinu hafi henni verið haldið frá lestarstöðinni í þrjá daga. Það stangist á við hefðbundnar vinnureglur þar sem gert er ráð fyrir því að rannsóknarnefndin komi á staðinn innan fárra klukkustunda frá því að atvik hefur átt sér stað. Á fréttavef BBC er haft eftir lögmanni fjölskyldu Menezes, Gareth Peirce, eftir fund hennar með rannsóknarnefndinni að málið væri eitt allsherjar klúður. Hún segist hafa lýst áhyggjum sínum yfir því að þrátt fyrir að nefndinni sé skylt samkvæmt lögum að hefja umsvifalaust rannsókn á látinu, hafi hún ekki hafist fyrr en að nokkrum dögum liðnum. "Við vitum ekki hvort það var yfirmaður Lundúnalögreglunnar eða innanríkisráðherra, eða þeir báðir, sem stóðu í vegi fyrir því að rannsóknin gæti hafist," sagði Peirce. Skjölum rannsóknarnefndarinnar hefur verið lekið í fjölmiðla en fyrrum yfirmaður í Lundúnalögreglunni sagði við BBC að að lekinn væri mjög skemmandi fyrir rannsóknina. Þau sýndu aðeins brotabrot af málinu öllu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×