Innlent

Deila um endurgreiðslu kauphækkana

Sjúkraliðar hafa vísað deilu sinni við Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu til Ríkissáttasemjara. Félögin gengu frá kjarasamningi í sumar en deila nú um framkvæmd hans. Einkum fer það fyrir brjóstið á sjúkraliðum að þeir voru rukkaðir um endurgreiðslu þeirrar hækkunar sem þeir höfðu þegar fengið þegar nýi samningurinn tók gildi. Undir lok síðasta árs var gengið frá skammtímasamningi sem færði sjúkraliðum á fjórtán stofnunum innan Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, eins og hálfs prósents launahækkun þar til gengið yrði frá nýjum kjarasamningi. Sá samningur var samþykktur fyrir nokkru og færir sjúkraliðum níu komma fjórtán prósenta launahækkun, sem er sama hækkun og sjúkraliðar hjá ríkisstofnunum fengu. Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir það hins vegar hafa komið sjúkraliðum í opna skjöldu þegar launahækkanir sem þeir fengu fyrstu sex mánuði ársins voru dregnar af launum þeirra eftir að nýi samningurinn tók gildi. Hún segir sjúkraliða hafa verið sátta við að gefa eftir eins og hálfs prósents hækkunina þegar nýi samningurinn tók gildi en ekki endurgreiða það sem þeir höfðu þegar fengið greitt. Kristján Sigurðsson, sem fer fyrir samninganefnd Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, segir mikilvægast í þessu að sjúkraliðar hjá sjálfstætt reknum stofnunum hafi fengið sömu launahækkun og sjúkraliðar hjá ríkinu. Nú sé deilt um framkvæmd þess en hann segist bjartsýnn á að deilan leysist. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×