Innlent

Ójöfnuður eykst á Íslandi

Tekjuskipting á Íslandi er orðin mun ójafnari en á hinum Norðurlöndunum og ójöfnuðurinn virðist enn fara vaxandi. Þennan ójöfnuð má að hluta til útskýra með tilkomu kvótakerfisins.Ójöfnuður er mældur með svokölluðum Gini stuðli sem er viðtekinn mælikvarði á á jöfnuð í skiptingu tekna milli manna. Í nýlegri grein sinni "Bað einhver um ójöfnuð" gerir Þorvaldur Gylfason ýtarlega grein fyrir Gini stuðlinum og sýnir fram á að ójöfnuður á Íslandi hefur aukist um 10 stig á undanförnum tíu árum sem er helmingshækkun. Gini stuðullinn er nú kominn í þrjátíu stig og nálgast óðfluga hinn mikla ójöfnuð sem ríkir í Bandaríkjunum en þar er ójöfnuðurinn 40 stig. Aukist ójöfnuður jafnmikið á næstu tíu árum eins og umliðin tíu ár þá verður ójöfnuðurinn jafn mikill hér og þar. Þorvaldur bendir á að ójöfnuðinn megi útskýra með því að ójöfnuður hafi aukist í nágrannalöndunum. Hann segir jafnframt að ójöfnuðinn megi einnig útskýra með tilkomu kvótakerfisins þar sem til hafi orðið ný stétt auðmanna þar sem fé hafi safnast á færri hendur. Hann segir einnig að hætta sé að ójöfnuður aukist enn frekar. Í greininni gagnrýnir Þorvaldur ríkisstofnanir fyrir að halda ekki nauðsynlegum tölum til haga. Hann segir stjórnvöld þurfa að sjá til þess að tölurnar um tekjuskiptingu og þróun hennar gegnum tímann séu aðgengilegar í gagnasöfnum og nái inn í alþjóðleg gagnasöfn. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×