Erlent

Brisfrumur græddar í konu

Lækning gæti verið í sjónmáli við insúlínháðri sykursýki eftir að læknum í Japan tókst að græða brisfrumur úr konu í dóttur hennar sem þjáðist af sjúkdómnum. Þetta er í fyrsta sinn sem flutningur brisfruma úr lifandi manneskju í aðra heppnast vel en aðgerðin fór fram á háskólasjúkrahúsinu í Kyoto í Japan á dögunum. Að sögn BBC heilsast mæðgunum vel og hefur dóttirin ekki þurft að sprauta sig með insúlíni síðan fljótlega eftir að frumurnar voru græddar í hana. Brisfrumur, sem eru teknar úr briskirtlinum, framleiða insúlín en það stýrir blóðsykurmagni líkamans. Brisfrumur sykursjúkra eiga hins vegar í vandræðum með að búa til hormónið. Áður hafa menn freistað þess að græða brisfrumur úr látnu fólki í sykursjúka, með misgóðum árangri því frumurnar eru oft skemmdar. Þótt fyrstu aðgerðirnar lofi góðu þá vara læknar við of mikilli bjartsýni því aðferðin er enn á tilraunastigi. Auk þess þýðir aðgerðin að frumugjafanum er sjálfum hættara við að fá sykursýki. Um sex þúsund Íslendingar eru með sykursýki en aðeins hluti þeirra er með þá insúlínháðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×