Erlent

Heimilar brottflutning með valdi

Enn eru um tíu þúsund manns í New Orleans og allt kapp er lagt á að koma þeim burt úr borginni. Her- og lögreglumenn gengu hús úr húsi í gærkvöldi og í nótt til að hafa uppi á fólki og hvetja það til að fara burt. Borgarstjóri New Orleans, Ray Nagin, hefur nú heimilað brottflutning með valdi, en hann segir það algera fásinnu að fólki sem ekki yfirgefi borgina sé meinað um mat og vatn, eins og haldið var fram í gær. Ástandið í borginni er aðeins að skána og þannig eru nú um sextíu prósent hennar undir vatni sem er töluvert minna en fyrir nokkrum dögum. Í gærkvöldi var svo í fyrsta sinn hægt að lýsa borgina upp að kvöldlagi síðan fellibylurinn reið yfir. Þá hefur glæpum einnig fækkað mjög eftir harðar aðgerðir yfirvalda undanfarna daga. Lögreglu- og björgunarsveitarmenn eiga samt ekki sjö dagana sæla því nú þurfa þeir í ofanálag við allt annað að berjast við mikla elda sem hafa kviknað um alla borg. Mikill vatnsskortur í borginni auðveldar ekki slökkvistörf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×