Innlent

Vilja afsögn Árna Magnússonar félagsmálaráðherra

MYND/GVA

Framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna, ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, furðar sig á ályktun Sambands ungra framsóknarmanna frá því í morgun, en hana má skilja sem svo, að þar sem að ungir framsóknarmenn telji Árna Magnússon vera „flottan fulltrúa flokksins", þá sé hann hafinn yfir landslög. Ungir jafnaðarmenn telja þvert á móti að flottast hefði verið hjá félagsmálaráðherra að viðurkenna að hann hafi gert mistök og segja af sér ráðherradómi eftir dóm Hæstaréttar.

Niðurstaða Ungra jafnaðarmanna er sú að Árni Magnússon sé ekki maður til að axla ábyrgð gjörða sinna. Hann sverji sig þvert á móti í ætt við aðra framsóknarmenn sem þekktir eru fyrir að ríghalda í ráðherrastóla sína hvað sem á dynur. Eftir framgöngu sína gagnvart fyrrverandi stýru Jafnréttisstofu eftir að dómur féll um embættisstörf hennar í héraði og hallærislega útúrsnúninga varðandi dóm Hæstaréttar um sínar eigin embættisfærslur situr félagsmálaráðherra nú eftir rúinn trausti og er, þrátt fyrir einlæga aðdáun ungra framsóknarmanna, alls ekki „flottur".

Framkvæmdastjórn UJ skorar á félagsmálaráðherra að feta í fótspor fyrrverandi jafnréttisstýru og segja af sér embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×