Innlent

Óháðir sérfræðingar beri saman skýrslur

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fá óháða sérfræðinga til að bera saman nýlegar skýrslur um öryrkja á Íslandi. Hann segir skýrslu Stefáns Ólafssonar fela í sér ónákvæman og villandi samanburð og hefur sent frá sér langa greinargerð um málið.

Stjórnvöld gera alvarlegar athugasemdir við skýrslu Stefáns Ólafssonar, prófessors um örorku og velferð á Íslandi. Heilbrigðisráðherra er þar engin undantekning. Hann hefur nú ákveðið að fá þriðja aðila til að gera óháðan samanburð á skýrslu Tryggva Þórs Herbertssonar um fjölgun öryrkja og skýrslu Stefáns.

Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra segir að það séu þrjár meginathugasemdir sem að hann geri, að Stefán tekur bara tvo bótaflokka, grunnlífeyri og tekjutryggingu en tekur ekki tillit til tekjutryggingaraukans eða aldurstengdu örorkuuppbótanna í samanburðinum.

Niðurstaðan er sú að það þurfi nýja skýrslu, óháðan samanburð á þeim tveimur skýrslum sem hafi komið út nýlega um málið.

Jón Kristjánsson segir jafnframt að upplýsingarnar verða að vera réttar og það verður að draga réttar ályktanir af þeim. Ég tek það fram að ég er ekki að berjast gegn bættum kjörum öryrkja, það er langt frá því. Við verðum að hafa bara réttan grunn til að vinna eftir og þess vegna ætla ég að láta þriðja aðila fara yfir þær tvær skýrslur sem að komnar eru um þetta til að fá álit á því. Þannig að við þurfum ekki að deila um það.

Jón Kristjánsson segist ekki sammála Einari Oddi Kristjánssyni, varaformanni fjárlaganefndar, sem gagnrýndi skýrslu Stefáns Ólafssonar með þeim orðum að hún væri áróðurskennd þar sem höfundurinn væri augljóslega fylgjandi skandínavísku velferðarkerfi. En hann er ósammála þeirri niðurstöðu Stefáns Ólafssonar að við séum aftarlega á merinni í norrænni velferð.

Jón segir að hann vilji vera á báti með Norðurlöndunum í velferðarkerfinu. Það er mín stefna og hefur verið og ég vona að við höldum því, enda sýnir norrænn samanburður það. Þannig að ég vona að við höldum þeirri stöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×