Innlent

Níutíu milljónir söfnuðust á uppboði í gærkvöldi

Um níutíu milljónir króna söfnuðust til góðgerðamála í Gíneu-Bissá í hátíðarkvöldverði í Listasafni Reykjavíkur í gærkvöldi. Svo virðist sem fjölmargir Íslendingar eigi nóg af peningum. Meðal annars var ómálað verk eftir Hallgrím Helgason selt á tuttugu og eina milljón króna á uppboði.

Yfir 250 manns mættu í hátíðarkvöldverðinn sem haldinn var í Listasafni Reykjavíkur. Þar hélt Roger Moore ræðu og sagði meðal annars frá því að barn hefði dáið í höndunum á honum í Gvatemala.

Um kvöldið söfnuðust 90 milljónir en þar af söfnuðust um 84 milljónir í uppboði. Ómálað listaverk eftir Hallgrím Helgason seldist á 21 milljón króna, söngur feðganna Garðars Cortes og Garðars Tórs Cortes seldist á fimm og hálfa milljón, lúxus flugferð til suður Afríku seldist á tuttugu milljónir, bassi áritaður af Sting seldist á sjö og hálfa milljón króna. Að fá að flytja veðurfréttir á NFS í einn dag seldist á tvær og hálfa milljón króna. Sá sem bauð hæst í starf veðurfréttamannsins sagði í samtali við NFS að þann dag sem hann myndi starfa yrði sól í viku.

Hallgrímur Helgason virðist vera kominn í hóp íslenskra listmálara sem mála verk fyrir tugi milljóna króna. Hann sagðist ekki hafa átt von á því að ómálað verk eftir hann færi á 21 milljón króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×