Erlent

Villepin í óvæntri heimsókn í úthverfi Parísar

MYND/AP

Dominque de Villepin, forsætisráðherra Frakklands, kom í dag í óvænta heimsókn í Aulnay-sous-Bois, eitt af úthverfum Parísar þar sem óeirðir hafa geisað undanfarnar vikur. Ráðherrann ræddi við íbúa í hverfinu, kennara og viðskiptamenn á svæðinu og hann lýsti yfir vilja til að hjálpa þeim fjölmörgu ungmennum sem eru atvinnulaus í fátækustu úthverfum borgarinnar.

Ríkisstjórn Frakklands hefur ákveðið að framlengja neyðarlög í landinu um þrjá mánuði en franska þingið á eftir að leggja blessun sína yfir það. Óeirðirnar sem staðið hafa í næstum þrjár vikur eru þær verstu í Frakklandi í 40 ár en 8500 bílar hafa verið brenndir, 100 opinberar byggingar og þá hafa 2800 manns verið handteknir. Talið er að tjónið í óeirðunum nemi 14 milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×