Erlent

Segja að H5N1 hafi stökkbreyst

Sænska dagblaðið Aftonbladet hefur það eftir vísindamönnum opinberrar heilbrigðisstofnunar í Víetnam að stökkbreytingin hafi komið fram í tugum sýna úr fuglum og mönnum. Fram kemur að fuglaflensan eigi þannig auðveldar en áður með að smitast úr fuglum í spendýr, þar á meðal fólk, en ekkert liggur hins vegar enn fyrir um það hvort veiran geti auðveldlega smitast milli manna. Hingað til hefur fuglaflensan aðallega borist á milli fugla, en um sextíu manns í Asíu hafa þegar látist af völdum hennar, þar um rúmlega fjörutíu í Víetnam. Veiran hefur þegar greinst í nokkrum Evrópulöndum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst því yfir að stökkbreyting á fuglaflensuveirunni af stofni H5N1, kunni að leiða til heimsfaraldurs, en heilbrigðisráðherrar ESB-ríkjanna telja þó afar litlar líkur á slíku. Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, segir engar fregnir hafa borist um stökkbreytinguna frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Hann bendir hins vegar á að ef slíkt gerðist, yrði að grípa til aðgerða, meðal annars yrði að reyna að hefta útbreiðsluna þar sem farsóttin væri að brjótast út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×