Erlent

Hótar óeirðaseggjum frekari aðgerðum

Innanríkisráðherra Frakklands hótar að herða enn frekar aðgerðirnar gegn ungum mótmælendum sem staðið hafa fyrir óöld í landinu undanfarnar sautján nætur. Lögreglan beitti táragasi í Lyon í nótt þegar ungmenni gengu þar berserksgang.

Þótt töluvert hafi dregið úr óöldinni í Frakklandi eftir að neyðarlög tóku þar gildi, ríkir slæmt ástand víða þar sem æstir og reiðir afkomendur innflytjenda láta enn til skarar skríða til að leggja áherslu á bága stöðu sína í samfélaginu.

Í fyrsta skipti í nótt frá því óeirðirnar brutust út í landinu fyrir rúmum tveimur vikum, brutust út óeirðir í Lyon, annarri stærstu borg landsins, en þar gengur ungmenni berserksgang og kveiktu í tugum bifreiða og unnu skemmdir á leikskóla. Lögreglan beitti táragasi til að dreifa mannfjöldanum og kom til harðra átaka.

Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, ítrekaði, eftir fund með yfirmönnum lögreglunnar í París í gærkvöldi, að þeim útlendingum sem stæðu á bak við ofbeldið og lætin að undanförnu, yrði vísað úr landi. Hann sagði að ef menn ætluðu að búa í landinu og öðlast landvistarleyfi yrðu þeir að virða lögin. Sarkozy undirstrikaði að allir þeir sem bæru ábyrgð á ofbeldinu að undanförnu yrðu látnir svara til saka.

Í Strasbourg flykktust ungmenni út á götur í gærkvöldi og kveiktu í bifreiðum og ýmsu sem á vegi þeirra varð, en frönsk yfirvöld segja að kveikt hafi verið í á fjórða hundrað bifreiða í landinu í nótt. Rúmlega hundrað og sextíu manns voru handteknir eftir atburði næturinnar. Ástandið í París var hins vegar með rólegra móti, enda um þrjú þúsund lögreglumenn á vaktinni, auk þess sem sólarhringsbann gegn almennum fundum utandyra var í gildi þar til í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×