Erlent

H5N1 sagður hafa stökkbreyst

Vísindamenn í Víetnam segja að fuglaflensuvírusinn af stofni H5N1 í Asíu hafi þegar stökkbreyst og geti þannig auðveldlega borist í menn. Haraldur Briem sóttvarnalæknir segist engar fregnir hafa fengið af þessu frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni og leggur því ekki trúnað á fréttirnar.

Frá þessu er greint á vef sænska dagblaðsins Aftonbladet í dag. Hingað til hefur fuglaflensuvírusinn aðallega borist á milli fugla, en um sextíu manns í Asíu hafa þegar látist af völdum hans. Fuglaflensa hefur þegar greinst í nokkrum Evrópulöndum, meðal annars í Rússlandi, Rúmeníu og Króatíu.

Í Víetnam hafa rúmlega fjörutíu manns látist af völdum veirunnar skæðu. Vísindamenn þar, segja að nýjar niðurstöður úr rannsóknum bendi til þess að veiran hafi stökkbreyst, en ekki hefur þó enn verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin í Genf hefur lýst því yfir að stökkbreyting á fuglaflensuveirunni af stofni H5N1, geti hrundið af stað heimsfaraldri. Heilbrigðisráðherrar Evrópusambandsþjóðanna hafa sagt að þeir telji litlar líkur á að fuglaflensan verði að alheimsfaraldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×