Erlent

Öryggisgæsla hert í París

Um 250 manns komu saman nærri Eiffel turninum í París til að mótmæla ofbeldinu að undanförnu.
Um 250 manns komu saman nærri Eiffel turninum í París til að mótmæla ofbeldinu að undanförnu. MYND/AP

Frönsk yfirvöld gripu til frekari varúðarráðstafana í morgun og hertu öryggisgæslu mikið í höfuðborgini París. Búist er við óeirðum vegna ákvörðunar stjórnvalda um sólarhringsbann við almennum fundum utandyra, sem tók gildi í morgun.

Þúsundir lögreglumanna standa vaktina í París, en óttast er að óeirðaseggir úr röðum fátækra afkomenda innflytjenda hvetji til skemmdarverka í borginni vegna fundabannsins sem er í gildi þar til klukkan sjö í fyrramálið. Ýmsir hópar hafa hvatt til ofbeldis í París með því að láta boð út ganga á netinu og með SMS-skilaboðum. Kveikt var í meira en 500 bílum í landinu nótt og um 460 bílum í fyrrinótt.

Miðborg Parísar hefur að mestu sloppið við óeirðirnar sem einkennt hafa Frakkland undanfarna sextán daga, en eftir að Chirac forseti tilkynnti um róttækar aðgerðir stjórnvalda til að sporna gegn óöldinni, óttast menn að til óeirða kunni að koma í borginni.

Ungmenni eyðilögðu hluta barnaskóla í bænum Savigny Le Temple sem er skammt suðaustur af París og einnig voru skemmdarverk unnin á orkustöð í bænum Amiens, með þeim afleiðingum að allur bærinn varð rafmagnslaus. Franska lögreglan handtók um tvö hundruð óeirðaseggi í nótt og hafa alls rúmlega tvö þúsund og fjögur hundruð manns verið handteknir síðustu tvær vikurnar.

Pierre Mutz, yfirmaður lögreglunnar í París, segir að aðgerðirnar sem gripið sé til, miði ekki að því að hindra að almenningur geti gengið um eða heimsótt höfuðborgina, heldur séu þær til að tryggja að fólk komist vandræðalaust í og úr vinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×