Sport

Prinsinn getur komist á toppinn á ný

Prinsinn var óstöðvandi þegar hann var upp á sitt besta, en hroki hans og sjálfumgleði fór fyrir brjóstið á mörgum
Prinsinn var óstöðvandi þegar hann var upp á sitt besta, en hroki hans og sjálfumgleði fór fyrir brjóstið á mörgum NordicPhotos/GettyImages

Fyrrum þjálfari hnefaleikakappans Prince Naseem Hamed, segir að hann eigi fína möguleika á að endurheimta heimsmeistaratitilinn ef hann ákveði að snúa aftur í hringinn, en hinn 31 árs gamli Hamed hefur látið lítið fyrir sér fara í þrjú ár.

Emanuel Steward þjálfaði Prinsinn á árunum 1999 til 2001, en þeir slitu samstarfi sínu eftir að Prinsinn tapaði eina bardaga sínum á ferlinum gegn Marco Antonio Barrera.

"Hann verður að æfa mjög vel og helga sig verkefninu algerlega ef hann ætlar að ná titlinum aftur, en ef hann gerir það, held ég að það tæki hann ekki meira en þrjá mánuði að komast í toppform," sagði Steward.

Ekki eru þó allir á sama máli og fyrrum heimsmeistarinn Barry McGuigan telur að Prinsinn ætti að sleppa því að snúa aftur í hringinn. "Það er mjög erfitt að koma til baka og endurheimta það hungur sem til þarf. Það er ekkert mál að koma sér í fínt form, en það er annað að hafa hugarfarið sem til þarf. Ég held að hann ætti að sleppa þessu, enda á hann nóg af peningum og lifir þægilegu lífi," sagði fyrrum meistarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×