Erlent

Blair galt afhroð í fyrsta sinn

 

Í fyrsta sinn frá því að Tony Blair varð forsætisráðherra Bretlands galt hann í dag afhroð í þinginu. Þingmenn höfnuðu með afgerandi hætti drögum Blairs að hryðjuverkalögum þrátt fyrir ákafar tilraunir hans til að telja þingheimi hughvarf.

Blair lagði allt í sölurnar til að fá nýju hryðjuverkalögin samþykkt en allt kom fyrir ekki. Lögreglan vill geta haldið grunuðum hryðjuverkamönnum í þrjá mánuði til yfirheyrslna þar sem hryðjuverkamál geti oft verið flókin, krafist samvinnu við erlend yfirvöld og þess að dulkóðuð gögn séu ráðin. Gagnrýnendur segja þetta óréttmætar tillögur sem séu til þess fallnar að auka reiði ungra múslíma, sem séu þeir sem líkast til verði fyrir barðinu á þessum reglum.

Blair varði lögin með kjafti og klóm í þinginu í dag. Hann sagði að gerðar hafir verið breytingar. Lögregla hafi sagt að hún verði að hafa þetta vald til að koma í veg fyrir hryðjuverk í Bretlandi. „Á síðustu viku höfum við komist að því að frá 7. júlí hefur verið komið í veg fyrir tvær hryðjuverkaárásir í landinu. Í gær tilkynntu Ástralar ..." sagði Blair en þurfti hér að gera hlé á máli sínu vegna framíkalla þingmanna, m.a. hrópaði einn: „Ég trúi því ekki!" Blair svaraði því til að kannski mætti taka meira mark á þeim sem komu í veg fyrir árásirnar.

Blair kallaði ráðherrana Gordon Brown og Jack Straw heim úr utanlandsferðum til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni en það dugði ekki til. Andstæðingar þessara laga voru fleiri, 322 á móti 291 sem var þeim fylgjandi. Þetta er í fyrsta sinn síðan Verkamannaflokkurinn komst til valda árið 1997 sem stjórnin geldur afhroð með þessum hætti, og þykir þetta ekki síst til marks um þverrandi pólitískan mátt Blairs, sem varð að kalla eftirmanninn Brown sér til stuðnings, sem dugði þó hvergi nærri til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×