Erlent

Varaðir við að kaupa Tamiflu á Netinu

Norsk heilbrigðisyfirvöld vara landsmenn við að kaupa flensulyfið Tamiflu í gegnum Netið af óþekktum framleiðendum en Norðmenn hamstra lyfið í þeirri trú að það verji þá gegn fuglaflensu. Norskir tollverðir hafa lagt hald á talsvert af lyfinu þegar það berst til landsins með póstsendingum en Tamiflu er lyfseðilsskylt og því óheimilt að flytja það inn með þessum hætti. Þar að auki munu eftirlíkingar vera komnar í umferð sem ekkert gagn gera, en geta valdið ýmis konar aukaverkunum.

Tollgæslan hér á landi sendir öll lyf sem finnast í pósti til lyfjastofnunar til athugunar en þar á bæ er ekki vitað nema um eina sendingu af efninu hingað til lands. Tamiflu er flensulyf, ætlað til að draga úr einkennum flensu. Það er hins vegar með öllu óljóst hvort það muni draga úr einkennum fuglaflensu, þótt líkur bendi reyndar til þess. Þá eru brögð að því að fólk taki lyfið strax, og það fær það svona til öryggis, en líklega hefur slík lyfjataka engin fyrirbyggjandi áhrif því hefja á inntökuna eftir að flensueinkenni koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×