Erlent

Skotbardagar í fátækrahverfi í París

Skotbardagar brutust út í einu af fátækustu úthverfum Parísarborgar í nótt en blóðug átök hafa staðið þar allar nætur í viku. Kveikt hefur verið í hundruðum bifreiða og ráðist inn í skóla, verslanir og stofnanir.

Ástandið í úthverfinu Clichy-sous-Bois versnar með hverjum deginum sem líður. Í gærkvöldi og nótt létu hundruð manna ófriðlega. Flestir þeir sem eru þarna að verki eru ungir karlmenn, atvinnulausir innflytjendur frá Afríku sem eru ósáttir við aðstæður sínar og að vera ekki samþykktir sem hluti fransks samfélags.

Hverfið er grátt og óaðlaðandi, íbúðirnar flestar félagslegt húsnæði og stefna stjórnvalda er sögð olía á óánægjueld fólksins þar.

Abderrahamane Bouhout, leiðtogiBillal-moskunnar, segir að í Clichy-sous-Bois, þar sem óeirðirnar byrjuðu, sé fjórðungur íbúa undir 25 ára aldri. Þeir hafi ekkert að gera og því magnist þrýstingur og því þurfi aðeins eitt atvik eins og dauða tveggja ungmenna til að kveikja ófriðarbál.

Claude Dilain, borgarstjóri íClichy-sous-Bois, segirað ef menn viðurkenni að átandið sé eldfimt eigi þeir ekki að vera undrandi þegar eldurinn blossi svo upp. Hann spyr einnig hvort Frakkar ætli áfram að sætta sig við þá örbirgð sem sé sums staðar í landinu.

Innanríkisráðherran Nicolas Sarkozy brást í fyrstu við með því að segja óróaseggina úrþvætti, en nú segja talsmenn lögregluyfirvalda að borgarastyrjöld sé í vændum í Clichy-sous-Bois og Sarkozy hefur þagnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×