Erlent

Þúsundir vottuðu Parks virðingu sína

Þúsundir Bandaríkjamanna vottuðu minningu mannréttindafrömuðarins Rosu Parks virðingu sína í dag þegar kistunni með jarðneskum leifum hennar var stillt upp í Rotunda-hvelfingunni milli þinghúsanna í Washington-borg. Hingað til hafa aðeins þrjátíu mestu þjóðhetjur Bandaríkjanna, svo sem Abraham Lincoln og John F. Kennedy fengið að liggja í Rotunda-hvelfingunni um tíma svo borgararnir gætu vottað þeim virðingu sína. Allt hafa það verið karlmenn, svo það má segja að Rosa Parks haldi áfram að brjóta blað í sögunni, jafnvel eftir dauða sinn.

Rosa Parks er konan sem neitaði að standa upp fyrir hvítum karlmanni í strætisvagni í Alabamaríki fyrir fimmtíu árum. Þessi sterka og þrjóska saumakona, sem var handtekin í kjölfarið, markaði þannig upphafið að áralangri baráttu blökkumanna fyrir afnámi laga um aðskilnað og ójöfnuð milli svartra og hvíta í Bandaríkjunum.

Parks lést síðasta mánudag, 92 ára gömul og var kistu hennar flogið frá Detroit til höfuðborgarinnar Washington í gær, svo bæði framámenn í samfélaginu og almennir borgarar fengju tækifæri til að votta Parks virðingu sína.

Frá árinu 1852 hafa aðeins þrjátíu manns legið í Rotunda hvelfingunni á Kapitólhæð, nær allir þjóðarleiðtogar eða -hetjur. Allt hafa það verið karlmenn, þar af aðeins einn blökkumaður, svo Rosu Parks hefur þannig eftir lát sitt, tekist að brjóta niður enn einn vegginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×