Innlent

Átök hjá framsókn í kvöld?

Átök hafa átt sér stað um stjórnarkjör í Framsóknarfélagi Reykjavíkurkjördæmis suður síðustu daga en óvenjumargir gefa kost á sér í stjórn og hefur það valdið því að stjórnin munhugsanlega ekki leggja fram tillögu á fundinum heldur lýsa eftir framboðum. Stefán Þór Björnsson, einn af frambjóðendum til stjórnar, er undrandi á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið. Hann segir í grein á hrifla.is að óvenjumargar konur hafi verið á upprunalegri tillögu stjórnar, eða fjórar konur í sjö manna stjórn. Hann hafi síðan frétt að Jónína Bjartmarz alþingismaður og Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi hafi krafist þess að Gerður Hauksdóttir og Kristín Guðmundsdóttir væru teknar af tillögunni. Félögum í Framsóknarfélaginu hefur fjölgað gríðarlega síðustu tvær vikurnar eða um 13 prósent, úr rúmlega 800 í tæplega 1.000. Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, er talinn stefna að fyrsta sætinu á framboðslista Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor og hafa til þess stuðning forsætisráðherra. Fréttablaðið segir í dag að Björn Ingi sé að segja Alfreð Þorsteinssyni og Önnu Kristinsdóttur stríð á hendur en þau stefna að fyrsta sætinu. Alfreð sagðist fagna fjölgun í félaginu. "Ég hef ekki neinar áhyggjur," sagði hann við blaðamann í morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×