Innlent

Snertir ekki Rithöfundasambandið

Stjórn Blaðamannafélags Íslands mun á næsta fundi sínum taka fyrir beiðni Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar vegna dóms og fjárnáms sem gert var í framhaldinu vegna ærumeiðandi ummæla Hannesar um Jón Ólafsson. Formaður Rithöfundasambandsins segir málið ekki koma sambandinu við og því verði ekki ályktað um það þrátt fyrir að Hannes sé þar félagsmaður. Formaður Blaðamannafélagsins, Arna Schram, segir Hannes hafa sent sér erindi þar sem þess er óskað að stjórn félagsins taki málið upp og láti í ljós álit sitt á breskum meiðyrðadómi á hendur Hannesi og fjárnámskröfu á hendur honum í framhaldinu. Arna segist því munu taka málið upp á stjórnarfundi. Hún segir ljóst að Blaðamannafélagið hljóti að verja tjáningarfrelsið í lengstu lög, en þó verði að hafa í huga að því eins og öðru séu settar skorður með lögum. Rithöfundasambandið hyggst þó ekki taka málið eða skoða það að öðru leyti að sögn formanns þess, Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, en Hannes hefur sömuleiðis lýst því yfir að eðlilegt hlyti að teljast að sambandið beitti sér í málinu auk þess að senda þeim samsvarandi erindi og Blaðamannafélaginu. Aðalsteinn Ásberg segir mál Hannesar ekki vera á borði félagsins enda líti hann svo á að málið sé því óviðkomandi. Hannes Hólmsteinn er ekki félagsmaður í Blaðamannafélaginu en mun vera félagi í Rithöfundarsambandinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×