Innlent

Ein sameiningartillaga samþykkt

Á laugardag var kosið í 61 sveitarfélagi vítt um landið um sextán tillögur um sameiningu sveitarfélaga. Ein sameiningartillaga var samþykkt og samkvæmt henni sameinast Austurbyggð, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Fjarðabyggð og Mjóafjarðarhreppur í kjölfar sveitarstjórnarkosninga 9. júní á næsta ári. Þrettán sameiningartillögur voru felldar. Það var á Snæfellsnesi, Dala og A-Barðastrandasýslu, V-Barðastrandasýslu, Strandasýslu, Hrútafirði, A-Húnavatnssýslu, Skagafirði, Eyjafirði, S- og N- Þingeyjarsýslum, N-Þingeyjarsýslu, N-Múlasýslu, uppsveitum Árnessýslu, Ölfus og Flóa, Suðurnesjum og Reykjanesi. Í fimm sveitarfélögum verða sameiningarkosningar endurteknar innan sex vikna. Fjögur þeirra eru í Þingeyjarsýslum þar sem kosið er um sameiningu við Húsavíkurbæ, Öxarfjarðarhrepp og Raufarhafnarhrepp. Það eru Aðaldælahreppur, Kelduneshreppur, Skútustaðahreppur og Tjörneshreppur. Einnig munu íbúar Reykhólahrepps greiða atkvæði að nýju um sameiningu við Dalabyggð og Saurbæjarhrepp. Á kjörskrá voru alls 69.144 en atkvæði greiddu 22.271, sem gerir 32,2 prósenta kosningaþátttöku. Alls voru 9.622 fylgjandi sameiningu, eða 43,8 prósent en 12.335 andvígir, eða 56,2 prósent. Andstaða við sameiningu var áberandi í fámennari sveitarfélögunum. Andstaðan var mest í Grýtubakkahreppi þar sem einungis tveir kjósendur vildu sameiningu, eða innan við 1 prósent. Þegar átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins hófst haustið 2003 voru sveitarfélögin í landinu 103. Að fengnum niðurstöðunum nú ásamt niðurstöðum þeirra atkvæðagreiðslna sem fram fóru 20. nóvember 2004 og 23. apríl 2005 munu sveitarfélögin í landinu verða 89 að loknum sveitarstjórnarkosningum vorið 2006. sda@frettabladid.is >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×