Innlent

Nýr vegur opnaður

Nýi vegurinn um Svínahraun var opnaður í dag. Vegarkaflinn er um fimm kílómetrar að lengd og styttist hringvegurinn um tæpan kílómetra. Með nýja veginum heyra tvær hættulegar beygjur sögunni til. Nýi vegurinn um Svínahraun og ný mislæg gatnamót Suðurlandsvegar og Þrengslavegar voru opnuð á hádegi og gamla veginum lokað. Vegurinn um Svínahraun er tilbúinn að mestu en hann er þrjár akreinar. Alls er vegurinn 4,6 kílómetrar að lengd og nær frá Hveradalabrekku að Litlu-Kaffistofunni. Styttist því hringvegurinn um tæpan kílómetra. Stoðir fyrir víra milli akreina eru að mestu komnar upp en vírinn sjálfur hefur þó enn ekki verið lagður. Verkið hefur tafist um nokkra daga, einkum vegna veðurs, en verktakinn verður þó ekki sektaður vegna þess. Samkvæmt lögreglunni á Selfossi gekk umferð um nýja veginn og mislægu gatnamótin vel fyrir sig í dag en það var verktakafyrirtækið KNH sem vann að framkvæmdunum og kostuðu þær um 400 miljónir króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×