Innlent

Bóluefni bylting í krabbalækningum

Bóluefni gegn algengustu tegundum leghálskrabbameins er bylting í krabbameinslækningum. Bóluefnið er væntanlegt á markað á næstu mánuðum. Stærsta rannóknarstöð þróunarverkefnisins er hér á landi. Leghálskrabbamein er ólíkt öðrum krabbameinum að því leyti að það er veirusmit og berst veiran milli kynja við samfarir. Veirurnar nefnast einu nafni HPV-veirur og hefur lyfjafyrirtækið Merck nú þróað og rannsakað bóluefni gegn HPV 16 og 18 sem finnast í 70 prósentum leghálskrabbameina. Rúmlega tólf þúsund konur á aldrinum 16-23 ára í þrettán löndum tóku þátt og var helmingurinn sprautaður með bóluefninu Gardasil en hinn helmingurinn með lyfleysu. Ekki ein einasta kona sem fékk Gardasil sýktist af leghálskrabbameini á næstu tveimur árum en í hópnum sem fékk lyfleysuna veiktist 21 kona. Rúmlega 270 þúsund konur látast af völdum leghálskrabbameins í heiminum á ári hverju svo það er mikið í húfi. Hér á Íslandi hefur verið leitað skipulega að leghálskrabbameini í konum í rúmlega 40 ár með gríðarlega góðum árangri. Íslendingar lögðu svo sannarlega sitt af mörkum til þessarar nýju rannsóknar á bóluefninu Gardasil. Kristján Sigurðsson, yfirlæknir hjá Krabbameinsfélaginu, segir 700 íslenskar konur hafa tekið þátt í rannsókninni. Þær hafi verið 710 í byrjun en um tvö prósent hefðu svo dottið út. Eftir að hafa verið inni í rannsókninni í þrjú ár sé það kannski heimsmet að 700 íslenskar konur skuli hafa orðið eftir inni í rannsókninni. Rannsóknastöðin í Skógahlíð er stærsta einstaka rannsóknastöðin í allri rannsókninni. Og þótt rannsóknum sé ekki alveg lokið þá telur Kristján þessar niðurstöður marka tímamót og að það verði jafnvel hægt að útrýma sjúkdómnum þegar fram í sækir. Aðspurður hvort hægt sé að bólusetja karlmenn líka þar sem þeir beri líka veiruna segir Kristján að það sé enginn vafi á því að karlmenn beri þetta á milli kvenna. Kona sem hafi bara verið með einum karlmanni sé því ekkert örugg því þetta fari eftir því hvernig karlmaðurinn hafi hagað sér í gegnum tíðina. Kristján segir að ekki sé vitað hvaða áhrif bóluefni hafi á karlmenn en verið sé að rannsaka það. Ef rannsóknirnar gefi góða raun geti vel verið að það þurfi að bólusetja bæði ungar konur og karla áður en þau verði kynþroska. Kristján segir tilkomu bóluefnisins ekki hafa nein áhrif á þá leit sem fari fram hjá Krabbameinsfélaginu að leghálskrabbameini því þetta komi ungum konum og börnum framtíðarinnar að góðu. Yfir 1500 konur greinast árlega með forstigsbreytingar leghálskrabbameins hér á landi. Kristján segir að með bóluefninu megi lækka þá tölu umtalsvert, en tilfellum hefur fjölgað nokkuð á síðari árum. Ástæðu fjölgunarinnar má líklega rekja til aukins frjálsræðis í kynferðismálum sem og þess að fólk hefur fyrr að stunda kynlíf en áður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×