Erlent

ESB-búar vilja Ísland í sambandið

Sjö af hverjum tíu íbúum Evrópusambandslandanna 25 vilja að Ísland fái aðild að sambandinu. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýjustu Eurobarometer-könnunarinnar, viðhorfskönnunar sem tölfræðistofnun ESB, Eurostat, gerir reglulega í öllum aðildarríkjunum. Meðal þess sem fram kemur í niðurstöðunum er að þegar íbúar ESB-landanna eru spurðir um afstöðu til hugsanlegrar frekari stækkunar sambandsins tróna EFTA-ríkin Sviss, Noregur og Ísland efst á lista. 78 prósent ESB-búa vildu sjá Sviss og Noreg í sambandinu en 70 prósent Ísland. Aftur á móti er stuðningur við aðild Tyrklands aðeins helmingur af stuðningnum við aðild Íslands. 35 prósent ESB-búa styðja inngöngu Tyrkja en 52 prósent lýsa sig andvíg henni. Stuðningur er einnig tiltölulega lítill við aðild Rúmeníu og Búlgaríu, þótt búið sé að gera aðildarsamninga við þessi tvö lönd. Réttur helmingur ESB-búa vill sjá Búlgaríu í sambandinu og 45 prósent Rúmeníu. 41 prósent er andvígt inngöngu þeirra. Í könnuninni kom fram að fólk í nýju aðildarríkjunum er almennt mun jákvæðara gagnvart frekari stækkun sambandsins en íbúar eldri aðildarríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×