Erlent

Menn vissu hvað gæti gærst

Menn vissu nokkurn veginn fyrir hvað myndi gerast þegar fellibylur á borð við Katrínu gengi yfir suðurströnd Bandaríkjanna, segir Jónas Elíasson, verkfræðiprófessor við Háskóla Íslands, en málstofa um hamfarirnar verður haldin í dag. Í málstofunni munu þeir Jónas Elíasson og Sigurður Magnús Garðarsson dósent fara yfir það hvað fellibyljir eru og hvað gerðist í New Orleans og nágrenni þegar Katrín reið þar yfir. Þeir hafa viðað að sér miklu magni upplýsinga og gagna um atburðina og ætla að miðla því til þeirra sem áhuga kunna að hafa í náttúrufræðahúsinu Öskju klukkan fjögur. Aðspurður hversu mikið menn vissu um áhrif Katrínar áður en hún kom segir Jónas að menn hafi vitað vel hvað myndi gerast. Gerð hafi verið fjölmörg tölvulíkön yfir þekkta fellibylji, m.a. fellibylinn George sem hafi riðið yfir 1998, og því hafi verið ljóst að slíkir fellibyljir myndu valda flóðum eins og þeim sem urðu. Jónas segist ekki geta svarað því hvers vegna viðbrögð almannavarna voru eins og þau voru, úr því að upplýsingarnar lágu fyrir. En Íslendingar búa einnig við náttúruvá, þótt ekki séu það fellibyljir sem ógni okkur. Spurður hvort Íslendingar geti eitthvað lært af þessari skelfilegu reynslu Bandaríkjamanna segir Jónas að hann telji að íslensk stjórnvöld hafi brugðist betur við í svipuðum tilvikum. Hann nefnir sem dæmi að það hafi uppgötvast nýlega að hætta væri á miklu flóði niður Markarfljótsdalinn ef Katla fari í gang vestan megin í Mýrdalsjökli. Slík flóð hafi orðið í fortíðinni. Stjórnvöld hér hafi brugðist við þessum fréttum og veitt fé til þess að rannsaka málið þannig að hægt yrði að koma upp viðbragðsáætlunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×