Erlent

Tala fórnarlamba enn óljós

Í dag tókst loksins að fylla eitt af stærstu skörðunum í varnargarðinum umhverfis New Orleans. Verkfræðingar eru teknir til við að dæla vatni úr borginni og gera ráð fyrir að það taki þrjá mánuði. Þar með er vandinn þó hvergi nærri leystur, því umhverfissérfræðingar segja stórhættulegt að dæla flóðavatni blandað skólpi, líkum og spilliefnum út í Pontchartrain-vatn og Mississippi-fljót. Ray Nagin, borgarstjóri í New Orleans, hefur einnig áhyggjur af því sem flýtur í vatninu, en hann telur að tíu þúsund manns hafi týnt lífi í New Orleans einni. Um leið og vatnið minnkar er hugsanlegt að önnur áföll láti á sér kræla. Enginn veit hversu mörg fórnarlömbin eru. Tvö hundruð og fjörutíu þúsund manns hafa verið flutt til Texas en yfirvöld þar hafa beðist undan fleiri flóttamönnum þar sem ekki sé hægt að sjá um þá. Skemmtiferðaskip hafa verið útbúin sem flóttamannabúðir þar sem gert er ráð fyrir að fólk þurfi jafnvel að hafast við í hálft ár. Margir vilja hins vegar ekki láta flytja sig þangað heldur halda áfram leit að ættingjum og ástvinum. Þúsundir neita að yfirgefa New Orleans, þrátt fyrir að björgunarsveitir leiti fólks til að flytja á brott. Skammt frá, í Gulfport í Mississippi, er allt í rúst. Katrín skall þar á af fullum krafti. Lilja Ólafsdóttir Hansch býr þar. Hún sagðist hafa upplifað fellibyl áður en að þessi fellibylur væri ekkert í líkingu við það og sagðist ekki geta lýst þessu og að hún hefði aldrei séð annað eins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×