Erlent

Óttast að þúsundir hafi farist

Meirihluti fórnarlamba fellibyljarins í New Orleans hafa nú verið flutt frá borginni. Leitarfólk fer nú hús úr húsi til þess að reyna að finna fólk á lífi sem þarfnast hjálpar og svo flytja megi hvern einasta íbúa borgarinnar á brott. Lögreglan skaut á hóp byssumanna, og drap að minnsta kosti tvo. Byssumennirnir skutu á hóp viðgerðarmanna sem voru á leið yfir brú í borginni. Dregið hefur úr glæpum og ofbeldi eftir að þúsundir þjóðvarðarliða voru fluttar til borgarinnar til að koma á lögum og reglu. Flestir þjófnaðanna sem nú eiga sér stað eru framdir í neyð og er litið fram hjá því ef nauðstaddir stela sér matvælum eða drykkjarvörum til þess beinlínis að halda lífi. Hópar fólks hafa loks hafist handa við það hörmulega starf að safna saman líkum af götum borgarinnar. Ótölulegur fjöldi líka er enn á floti í flóðvatninu, föst í byggingum eða liggja á víðavangi. Yfirvöld vara við því að tala látinna geti farið að hækka all ískyggilega og óttast að mannfall geti skipt þúsundum. Björgunarmenn standa frammi fyrir þeim vandræðum að fjöldi fólks neitar að yfirgefa húsnæði sitt. Sumir segjast vilja vernda eigur sínar, en aðrir vilja ekki yfirgefa gæludýr sín sem ekki eru leyfð í neyðarskýlunum. Haft er eftir aðstoðarinnanríkisráðherra Bandaríkjanna, Michael Chertoff, í Washington Post að engum verði leyft að vera eftir. "Við munum ekki leyfa það að fólk dveli í húsum sínum vikum og mánuðum saman meðan við dælum vatni úr borginni og hreinsum hana," sagði hann. Borgarstjóri New Orleans, Ray Nagin, tók undir orð Chertoff og sagði það öryggisatriði að allir yfirgæfu borgina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×