Erlent

Schröder og Merkel mætast í kvöld

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands og leiðtogi jafnaðarmannaflokksins, og Angela Merkel, kanslaraefni Kristilegra demókrata, mætast í kvöld í kappræðum í sjónvarpi. Þetta verða þeirra einu kappræður fyrir kosningarnar sem fram fara 18. september og eru taldar geta haft þó nokkur áhrif á hvor flokkurinn beri sigur úr býtum. Búist er við að fylgst verði með kappræðunum á fimmtán milljónum þýskra heimila. Það er þó á brattann að sækja fyrir Schröder, en flokkur Merkel nýtur núna um ellefu prósentustiga meira fylgis samkvæmt skoðanakönnunum. Fyrirfram er reiknað með að Schröder komi betur út úr kappræðunum, hann þykir snillingur í að skrúfa frá sjarmanum fyrir framan tökuvélarnar þegar mikið liggur við auk þess sem hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á málefnunum sem til umræðu eru eftir sjö ár í kanslarastól. Frammistaða hans í sjónvarpskappræðunum við Edmund Stoiber árið 2002 er talin hafa átt stóran hluta í kosningasigri jafnaðarmannaflokksins það ár. Merkel hefur þótt stíf og þurr og ef til vill dálítið óheppin í orðavali í fjölmiðlum. Það kann þó að vera að þessi framkoma Merkel komi henni á endanum alls ekki illa - sumir stjórnmálaskýrendur segja þýska kjósendur orðna leiða á ljúfu mali Schröders og kjósi heldur þurrar staðreyndir úr munni Merkel. Kappræðunum verður sjónvarpað beint á fjórum stærstu sjónvarpsstöðvum landsins klukkan hálfsjö í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×