Erlent

Slepptu blöðrum í minningu látinna

Íbúar Beslan í Norður-Ossetíu komu saman klukkan fimm mínútur yfir níu í morgun og slepptu 331 hvítri blöðru upp í loftið til minningar um gíslana sem létust í umsátrinu um barnaskólann fyrir nákvæmlega ári síðan. Tsjetsjenskir hryðjuverkamenn réðust inn í barnaskólann í Beslan fyrir ári og þremur dögum. Árásin var vel undirbúin, þeir höfðu komið sprengiefni og vopnum fyrir í skólanum áður og áttu því auðvelt með að ná honum og um eitt þúsund skólabörnum og kennurum á sitt vald. Rússneski herinn var kallaður til og sátu hersveitir um skólann í þrjá daga á meðan ættingjar gíslanna fylgdust angistarfullir með og vissu ekki hvað fór fram inni í skólanum. Rússnesk yfirvöld neituðu með öllu að semja við gíslatökumennina. Á þriðja degi, klukkan fimm mínútur yfir eitt eftir hádegi að staðartíma, heyrðist sprenging innan úr skólanum. Þá ákvað herinn að ráðast til inngöngu og freista þess að frelsa gíslana. Það fór allt á versta veg, hersveitirnar lentu í langvinnum skotbardögum við mannræningjanna, sem enduðu á að sprengja sig í loft upp, allir nema einn. 331 lét lífið í átökunum, þar af rúmur helmingur börn. Ættingjar þeirra sem létust hafa lengi barist fyrir því að málið verði rannsakað og því komið á hreint hver beri ábyrgð á því að svo auðvelt var fyrir hryðjuverkamennina að taka skólann og eins hverjum það sé að kenna að svo margir dóu þegar reynt var að frelsa gíslana. Fulltrúar mæðra barna sem létu þarna lífið hittu Pútín Rússlandsforseta í gær og kröfðust þess að stjórnendur aðgerðanna yrðu látnir sæta ábyrgð. Forsetinn lofaði því að málið yrði skoðað en benti á að ekkert ríki gæti tryggt algert öryggi borgara sinna, eins og íbúar New York, Madrídar og Lundúna hefðu fengið að finna fyrir á undanförnum árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×