Erlent

Mugabe með „hreinsunarátak“

Ríkisstjórn Roberts Mugabes heldur áfram svokölluðu „hreinsunarátaki" í kringum borgir landsins með því að sópa þúsundum manna sem búa í neyðarbúðum upp í bíla í skjóli myrkurs og skilja þær eftir vítt og breitt upp til sveita án nokkurrar aðstoðar. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa smyglað út myndum af ástandinu og segja það skelfilegt. Stjórn Mugabes ákvað fyrir nokkru að eyðileggja heimili um sjö hundruð þúsunda manna sem bjuggu í fátækrahverfum í kringum höfuðborgina Harare. Aðgerðin var kölluð Operation Murambatsvina, eða aðgerðin „Rekum ruslið burt". Hluti fólksins fékk svo inni í nokkurs konar neyðarbúðum fyrir utan Harare og Bulawayo í suðri eftir aðgerðirnar. Í skýrslu sem gefin var út í síðasta mánuði fordæmdu Sameinuðu þjóðirnar aðgerðirnar og sögðu afleiðingarnar hrikalegar fyrir fólkið sem þarna missti það litla sem það átti. Audrey Gaughran, starfsmaður Amnesty International, segir að neyðarbúðunum hafi mjög skyndilega verið lokað um leið og skýrsla SÞ hafi verið gefin út. Fólki sem búið hafi í búðunum hafi verið sópað upp bíla í skjóli myrkurs og það skilið eftir vítt og breitt upp til sveita. Gaughran segir að fólkinu hafi verið sagt að velja hérað og svo hafi verið farið með það þangað. Amnesty International hafi komist að því að fólkinu hafi verið hent út úr bílum á hinum og þessum stöðum í sveitinni og í flestum tilvikum hafi það ekki haft í nein hús að venda og verið án matar og aðgangs að salernum eða hreinu vatni. Það hafi átt að halda til einhverra þorpa sem óvíst var hvort tekið yrði vel á móti því. Amnesty International segir flest fórnarlömb aðgerðanna nú reyna að troða sér aftur inn á yfirfull heimili í sveitum eða borgum en sumir sofi einfaldlega úti í litlum hópum, dreifðum um landið, án nokkurra bjarga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×