Erlent

Kosningadagur ákveðinn

Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar gaf út tilskipun í gær sem kveður á um að landið þar sem byggðir Ísraela á Gaza stóðu áður yrðu almenningseign. Auk þess tilkynnti hann að þingkosningar yrðu haldnar 25. janúar næstkomandi. Hlé var gert á brottflutningi landnema í gær vegna hvíldardags gyðinga en á morgun fer allt á fulla ferð á ný. Ísraelskir embættismenn segjast stefna að því að allar byggðirnar verði tæmdar á morgun og þá verður tekið til við fjögur hverfi á Vesturbakkanum. Markmið yfirlýsingar Abbas er vafalaust að slá á áhyggjur almennings um að landsvæðin verði veitt hátt settum félögum í Fatah-hreyfingu forsetans en þar hefur spilling verið landlæg um árabil. Þingkosningar í Palestínu átti upphaflega að halda í júlí en Abbas frestaði þeim, að eigin sögn vegna brottflutnings landtökumanna. Búist er við að Hamas-samtökunum muni vegna vel í þeim en þau unnu fjölmörg sæti af Fatah í bæjarstjórnarkosningum fyrr á þessu ári. Leiðtogar Hamas kváðust í gær hæstánægðir með tilkynningu Abbas og sögðu að undirbúningur fyrir kosningarnar væri þegar hafinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×