Erlent

Lögreglan heldur áfram að skjóta

Lundúnalögreglan ætlar ekki að láta af stefnu sinni að skjóta á grunaða sjálfsmorðsprengjumenn sem óhlýðnast skipunum þeirra. Lögreglan í Lundúnum hefur sætt mikilli gagnrýni vegna drápsins á Brasilíumanninum Jean Charles de Menezes í síðasta mánuði. Í gær var tilkynnt um smávægilegar breytingar á stefnu hennar en eftir sem áður heldur lögreglan því til streitu að réttlætanlegt sé að skjóta á menn sem hún telur komna á fremsta hlunn með að fremja hryðjuverk. Fjölskylda de Menezes er stödd í Lundúnum og hefur skorað á Ian Blair, yfirmann Lundúnalögreglunnar, að segja af sér en í vikunni var skýrslu lekið þar sem fram kom að hegðun Brasilíumannsins hefði ekki á nokkurn hátt réttlætt viðbrögð lögreglunnar. Blair baðst í gær innilegrar afsökunar á drápinu í samtali við BBC en neitaði hins vegar staðfastlega að hann hefði reynt að koma í veg fyrir rannsóknina sem skýrslan er byggð á. Blair sagði jafnframt að ekki væri hægt að líta fram hjá í samhengi við dauða de Menezes, að 52 saklausir borgarar hefðu beðið bana nokkrum dögum áður í hryðjuverki. Mál Brasilíumannsins mætti ekki yfirskyggja þá staðreynd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×