Erlent

Munu áfram skjóta til að drepa

Lögregla í Lundúnum mun ekki hverfa frá þeirri stefnu að skjóta til drepa menn sem hún telur að ætli að fremja hryðjuverk. Að þessari niðurstöðu komust lögregluyfirvöld eftir endurskoðun á stefnunni í kjölfar þess að Brasilíumaðurinn Jean Charles de Menezers var skotinn fyrir mistök á Stockwell-lestarstöðinni í Lundúnum 22. júlí síðastliðinn. Reuters-fréttastofan hefur eftir talskonu Lundúnalögreglunnar að litlar breytingar hafi verið gerðar á leiðbeiningum til lögreglumanna um viðbrögð þegar grunaðir hryðjuverkamenn eru annars vegar en að stefnan verði að mestu óbreytt þar sem enn sé hætta á að sjálfsmorðsárásarmenn láti til skarar skríða í borginni. Drápið á Menezes hefur vakið upp spurningar meðal almennings í Bretlandi um þessa stefnu lögreglunnar og þá er Ian Blair, lögreglustjóri í Lundúnum, í nokkrum vandræðum vegna málsins þar sem í ljós hefur komið að lögreglan sagði ekki satt um atburðarásina sem leiddi til þess að de Menezes var skotinn átta sinnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×