Erlent

Sniglaplága í Danmörku

Garðeigendur í Danmörku keppast nú við að drepa Spánarsnigla í tugþúsundatali. Sniglarnir eru orðnir alger plága og virðist fjölga með hverju árinu. Spánarsniglarnir bárust til Danmerkur fyrir um fimmtán árum. Þeir eru vanir þurru og heitu loftslagi við Miðjarðarhafið, að sögn Hans Eriks Svarts, líffræðings hjá Náttúruvernd Danmerkur, sem gerir honum erfitt fyrir að fjölga sér. Hann framleiðir því ógrynnin öll af eggjum því aðeins nokkrir sniglar ná fullum þroska. Í Danmörku eru sumrin hins vegar mun rakari, sem eru kjöraðstæður fyrir snigilinn, svo honum hefur fjölgað óskaplega síðustu árin. Í dagblaðinu Berlingske Tidende er í dag rætt við Birgit Gjödvad sem býr í Sabro á Austur-Jótlandi. Garðurinn hennar er fimm þúsund fermetrar og undirlagður af Spánarsniglum. Hún ákvað að hefja baráttu við óvættirnar í fyrrasumar og nú fer hún á hverju einasta kvöldi með fötu af saltvatni og safnar í hana sniglum. Hún telur þá samviskusamlega og í fyrrakvöld drap hún snigil númer 37.800. Sniglarnir eru svona illa liðnir vegna þess að þeir éta allt sem að kjafti kemur, kálhausar hverfa til dæmis áður en þeir ná upp úr moldinni ef sniglarnir komast í þá. Vandamálið er að það er afar lítið vitað um hvaða baráttuaðferðir duga gegn sniglinum. Hann hefur lítið verið rannsakaður og á meðan renna garðeigendur blint í sjóinn og tína og tína og tína og tína og vita ekki hvort það hefur nokkur áhrif á það hversu margir sniglar verði í garðinum á næsta ári. Spánarsnigillinn hefur einnig gert óskunda í Noregi, en hefur ekki fundist hérlendis enn þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×